——————————————————————-
Bjarni Harðarson
——————————————————————-

Fyrirboðar Ólafar

Inni í Fróðárdölum á afrétti Biskupstungnamanna eru hníflóttir hestar. Horn þessi sem ekki eru nema þumlungslöng og þunn ganga upp úr höfði hestanna rétt norðan við eyrun þegar vindur er að austan og skeflir í af jöklinum. Fáir núlifandi hafa þó séð furðudýr þessi og jafnvel færri heyrt þeirra getið enda af þeim engar sögur. Ekki þá aðrar en þær sem sagðar voru af körlum og kerlingum þegar Þorvaldur Thoroddsen reisti Kjalveg árið 1888 og nú eru gleymdar. Sögur sem eitt sinn lifðu en reyndust í blóra við þær hégiljur nútímans að til séu skil milli sagna og raunveruleika. Hégiljur gerðar af þeim sem líkt og postulinn Tómas geta engu trúað nema snerta berum fingurgómum. Slíkt fólk gerir veröldina kámuga með puttum sínum.

Í fyrra bar kýr tvíhöfða kálfi, ær sexfættu lambi fyrir vestan en mórauður einlembingur á Tjörnesi var kýklópur. Horfði sá sínu eina auga út í veröldina sigri hrósandi og slökknaði. Einhyrndur hrútkettlingur fannst í fjárhúsi fyrir norðan og hvarf skömmu síðar. Í sjó fundust síldfiskar með fleiðrum og öfuguggar í heiðarvötnum.

Náttúran hafði talað en enginn var til að hlusta. Og hefði einhver heyrt er líklegast að landvættirnir væru sagðir öfundsjúkir yfir mekt nútímans. Það er af að innst í baðstofum liggi karlæg og margvís kerling undir skóbótarstagi og lesi í þegar heyrist af lambi með hrafnsgogg eða sjái fyrir mannfelli af gangi tungla. Okkur er horfin sú spektin að skilja táknmál náttúrunnar.

Dýrin sem hér birtast eru raunveruleiki á sama hátt og við sjálf. Þau eru afsteypur af teiknum ársins og eiga sér systur fylltar tróði í skápahillum í náttúrugripasöfnum austanfjalls. Önnur finnast í sögum sem eru jafn áþreifanlegar og allar þær vísitölur sem nú í engum hilluskáp finnast.

 

Fljúgandi ég sauðinn sá,
saltarann hjá tröllum,
hesta sigla hafinu‘ á,
hoppa skip á fjöllum.

 (Bjarni skáldi, d. 1625)

Skrifað í tengslum við sýningu Ólafar Nordal í Gallerí Start Art, Reykjavík, 2009
© Bjarni Harðason