------------------------------------------------------------------

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir

------------------------------------------------------------------

Olof Nordal Íslenskt dýrasafn - great auk

ólöf nordal
iceland specimen collection – great auk
2010. photo. 110 x 80 cm

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir

Hugarfar

,,Hugann grunar, hjartað finnur lögin. Heilinn greinir skemmra en nemur taugin.’’ Einar Benediktsson

 

Ólöf Nordal framkallar hugsun í verkum sínum með því að varpa ljósi á þversagnir í hugarfari þjóðar sem snerta viðtekinn skilning á menningarverðmætum. Hugsunin leyfir undrun að lifa meðal sýnishorna af ásjónum, sögnum og gripum á tvívíðum fleti ljósmyndarinnar. Náttúruleg ónáttúra verkanna gerir hið ómögulega mögulegt og opnar leiðir að annarri sýn og annars konar hugarfari.

Ljósmyndaverkið Líffærasafn – Heili, sýnir meintan heila Einars Benediktssonar, skálds í krukku; sköpunarmáttur í formalíni til framtíðar. Gripurinn á sér viðeigandi samastað í Líffærasafni Háskóla Íslands og hann minnir okkur á orð Galileos: „Mælið allt sem mælanlegt er og gerið það mælanlegt sem er það ekki.“ Heili fyrimyndar gáfumannsins, sem hvílir í þjóðargrafreit á Þingvöllum, var fjarlægður við krufningu af virtum prófessor sem vænti þess að þegar fram liðu stundir yrði hægt að mæla mátt hugsunar út frá gerð og lögun heilans. Hugvit skáldsins er enn ómælt en það lifir í ritverkum sem talin eru meðal helstu menningarverðmæta þjóðarinnar.

Höfuðlagsfræðingar fyrri tíma, greindu skapgerðir og gáfur út frá mælingum á höfuðkúpum og andlitsdráttum. Víða um Evrópu voru gerðar afsteypur í nafni vísindanna með það fyrir augum að varðveita mismunandi gerðir einstaklinga. Þessi iðja mun eflaust hafa haft áhrif á Madame Tussaud sem hóf, upp úr miðri átjándu öld, að gera eftirmyndir úr vaxi af lifandi fólki, einkum rithöfundum og aðalsfólki. Síðar urðu vaxmyndirnar að vinsælum sýningargripum og bárust sagnir um þá til Íslands. Um miðbik síðustu aldar gaf Óskar Halldórsson, útgerðarmaður, Þjóðminjasafni Íslands erlendar vaxmyndir, auk þess sem hann lét gera úr vaxi ásjónur átján Íslendinga sem taldir voru bera af sökum hugvits og gjörvuleika. Fyrirmyndirnar voru allar lifandi samtímamenn Óskars. Enginn þeirra er lengur á lífi en Ólöf leitaði uppi afkomendur og reyndust börn þriggja enn á lífi. Þau voru ljósmynduð, hvert með sínum föður, í geymslu safnsins á meðal merkra sýningargripa þjóðarinnar.

Verkin Vaxmyndasafn – Sonur og faðir / Dóttir og faðir / Faðir og sonur, eru samkvæmt Ólöfu innblásin af gamalli sögn um mann sem er á ferð upp til fjalla. Hann gengur fram á lík ungs manns sem jökullinn hefur skilað eftir langa vist í ísnum. Á meðan maðurinn virðir fyrir sér fullkomlega varðveittan líkamann, rennur það upp fyrir honum að þetta muni vera faðir hans sem týndist á fjöllum þegar hann sjálfur var enn í móðurkviði. Þarna hittast feðgarnir fyrsta sinni – sonurinn fast að sjötugu, faðirinn liðlega tvítugur. Í verkum Ólafar skapar endurheimtin, sem ögrar lögmálum náttúrunnar, truflandi nálægð náins. Mæla má líkindi andlitsdrátta feðga og feðgina en ókennilegur samruni ásjóna lífs og liðins setur spurn við hvor fari eða komi á undan, frummyndin eða eftirmyndin?

Einstakir lifandi menn eru steyptir í vax en fáséðir fuglar eru drepnir og stoppaðir upp til að skapa menningar- og náttúrusöguleg verðmæti. Verkið Íslenskt dýrasafn – Geirfugl samanstendur af tveimur ljósmyndum úr geymslu Náttúrugripasafns Íslands; önnur er af geirfuglinum sem var keyptur af þjóðinni á erlendri grund á sama tíma og handritin komu heim en hin er af listilega skálduðum staðgengli hans sem gerður var á meðan þjóðin átti ekkert sýnishorn. Augljóst er að eftirmyndin, gerð úr mörgum hömum svartfugla, varð hálfgerður vanskapnaður í höndum hamskerans enda fyrirmyndin löngu útdauð.

Í ljósmyndaverkunum á sýningunni snertir Ólöf Nordal arfleifð þjóðar á gagnrýninn og beittan hátt. Hinn ókennilegi samfundur fyrirmyndar og eftirmyndar truflar og vekur upp hugsun um menningarleg verðmæti; einstaklinga, gripa, sagna og safna þjóðarinnar.

Skrifað eftir vinnustofuspjall við Ólöfu Nordal.