——————————————————————-
Eva Heisler
——————————————————————-

Íslensk dýrasöfn: Um myndlist Ólafar Nordal

Þegar gengin er stórgrýtt fjaran sunnan-megin við Reykjavík verður á vegi manns fugl sem líkist helst mörgæs á klöpp úti í sjónum. Málmkennd og slétt áferðin gefur til kynna að hér sé um smíðisgrip að ræða; hér er komin eftirmynd geir-fuglsins sem útrýmt var fyrir margt löngu. Skúlptúr Ólafar Nordal er þarna utan seilingar, með kaldan sjóinn allt um kring, eins konar afturganga með gogg, út við ströndina þaðan sem menn réru til að drepa síðasta geirfuglsparið sem vitað er um árið 1844. Safnarar vissu þá að geirfuglinn var í útrýmingarhættu og buðu háar fjárhæðir fyrir uppstoppuð eintök; það voru Íslendingar sjálfir sem drápu þetta par fyrir útlenda safnara.

Álskúlptúr Ólafar Nordal af þessum útrýmda fugli er um það bil tvisvar sinnum stærri en hann var í raunveruleikanum. Hugsanlega kemur hann einhverjum fyrir sjónir sem venjulegur hefðbundinn minnisvarði um fallna stríðshetju, sem í þessu tilfelli er ófleygur sjófugl, drepinn í hagnaðarskyni fyrir safnara sem hugðist þannig „varðveita“ hann, hversu undarlega sem það nú hljóðar. Á hinn bóginn er skúlptúr Ólafar ekki réttur og sléttur minnisvarði um útdauða fuglategund. Hann vekur einnig upp minningar um atburð sem er nær okkur í tíma, samskot sem efnt var til meðal þjóðarinnar á áttunda áratugnum til að festa kaup á uppstoppuðum geirfugli sem talinn var upprunninn á Íslandi.

Auður Ólafsdóttir listfræðingur lýsir þessu þjóðarátaki sem beindist að því að kaupa fuglinn af Sotherby’s uppboðsfyrirtækinu: „Gekk þar maður undir manns hönd í þjóðarsamskotinu, börn tæmdu krónubauka sína, og þegar yfir lauk hafði safnast andvirði þriggja herbergja íbúðar í pottinn.“(1) Auður lætur að því liggja að þessi tilraun til að koma geirfuglinum „heim“ hafi verið eins konar friðþæging þjóðarinnar. Verið var að festa kaup á missi, missi sem tók á sig mynd hlutar sem hafði þann eina tilgang að gera missinn sýnilegan.

Báðar þessar uppákomur, sjálft drápið á geirfuglsparinu árið 1844 og kaupin á uppstoppuðum fuglinum árið 1973, höfðu í för með sér samskipti við útlenda safnara. Fugl Ólafar er steyptur í ál, málm sem framleiddur er að undirlagi útlendra hagsmunaaðila með skaðlegum afleiðingum fyrir íslenska náttúru. Þetta listaverk markar því stað, ofbeldi og fjarveru. Svo vitnað sé til listfræðingsins Rosalind Krauss, þá er hefðbundinn minnisvarði settur niður á „ákveðinn stað þar sem hann talar til okkar á táknmáli um merkingu eða gildi staðarins“.(2) Fugl Ólafar vekur upp efasemdir um staðinn sem hann situr á. Verk hennar harmar missi, en um leið er missirinn steyptur í ál, og setja bæði efni og lögun verksins spurningamerki við þá eftirsjá sem það býður upp á.

Það kaldhæðnislega við útrýmingu geirfuglsins er að hann leið undir lok vegna þess hve sjaldgæfur hann var; löngunin til að sýna hann uppstoppaðan jók á verðgildi hans og flýtti fyrir útrýmingu hans. Í verkum sínum fæst Ólöf Nordal iðulega við spurningar um samfélagslega og fagurfræðilega merkingu sýningarferlisins. Corpus dulcis (1998) var afsteypa úr súkkulaði af hinum fullkomna karlmannslíkama, í ótal smábitum, hrúgað á stall og boðinn sýningargestum til neyslu. Árið 1996 hélt hún sýningu í Nýlistasafninu á gifsafsteypum af dýrum sem lýst er í íslenskum þjóðsögum og stillti þeim upp eins og nýklassískum mannamyndum. Þarna var að finna „brjóstmyndir“ af rjúpu og fálka, sem í þjóðsögum eru stundum nátengd, holdgervingar tvíburanna blíðu og grimmdar.(3) Venjulega er ekki litið á brjóstmyndina sem hluta af stærri heild, jafnvel þótt hún sýni okkur aðeins hluta af mannslíkamanum. En þessar bjóstmyndir af fuglum koma manni fyrir sjónir sem brot. Með því að nota viðtekna aðferð sem tengist gerð mannamynda til að gera myndir af fuglum, steypir listakonan saman ólíkum hefðum með ófyrirsjáanlegum og óþægilegum hætti.

Nýleg myndröð listakonunnar nefnist Íslenskt dýrasafn; þar er um að ræða stórar ljósmyndir af dýrum sem eru eða hafa verið í íslenskum náttúrugripasöfnum. Tíu þessara ljósmynda sýna hvítingja sem fundist hafa í íslenska fuglastofninum. Þar á meðal eru hvítur hrafn, hrossagaukur, kría, þröstur og lundi. Fuglarnir svífa í lausu lofti á miðri mynd og snúa litlausir goggar þeirra til vinstri og bleikir fætur þeirra til hægri. Bakgrunnur myndanna er himinninn yfir Reykjavík, þakinn skýjabólstrum. Sem snöggvast er engu líkara en maður sjái fuglana fljúga, en frekari skoðun leiðir í ljós að sérhver þessara hvítingja er lífvana, liggjandi á annarri hliðinni með samanbrotna vængi. Við þekkjum alla þessa fugla á goggunum, ílangan gogginn á hrossagauknum, snubbóttan gogginn á lundanum, en hvíti liturinn gerir þá yfirnáttúrulega að sjá.

Samanskroppnir búkar fuglanna stangast á við ólgandi himininn, þar sem hvítleika fjarveru og náttúrulegs fráviks er teflt gegn hvítleika sem sprottinn er af náttúrulegri virkni og nærveru. Leiða má hugann að útúrdúr Hermans Melville um hvíta hvalinn í skáldsögunni Moby Dick. Þar veltir Melville vöngum yfir því hvers vegna hvítleiki, sem er venjulega tengdur fegurð og hreinleika, stingur í augu þegar hvítingi á í hlut. Hann lætur þess getið að „í eðli sínu er hvítleiki ekki litur heldur fjarvera litar og um leið samsteypa allra lita“. Ennfremur spyr Melville sig hvort það sé þess vegna sem við skynjum víðáttumikið vetrarlandslag sem „þögult tóm, uppfullt með merkingu, eins konar litlaust, litríkt guðleysi sem við fælumst?“ Hann er á því að hið „óskilgreinda og ótakmarkaða“ við hvítleikann komi „aftan að okkur þar sem í honum felst hugmyndin um útrýmingu alls sem er.“ (4)

- úrdráttur úr sýningarskrá

© Eva Heisler

Grein Evu Heisler Íslensk dýrasöfn: Um myndlist Ólafar Nordal birtist í bæklingi sem gefinn var út í tengslum við sýningunaÍslenskt dýrasafn í Gallerí i8, Reykjavík, 2005.

____________________________________________________________________


(1)  „Nútímaafsteypur táknmynda,“ Skírnir 176 (Vetur 2003) 516.

Þýð: Aðalsteinn Ingólfsson
(2)  „Sculpture in the Expanded Field“, The Originality of the Avant-Garde and Other Myths (Cambridge, MA and London: The MIT Press, 1985) 279
(3)  Einar Ólafur Sveinsson, The Folk-Stories of Iceland, rev. Einar G. Pétursson, þýð. Benedikt Benedikz, ritstj. Anthony Foulkes (London: Viking Society for Northern Research, 2003), 296
(4)  New York and London: Penguin Books (2003), 212

 Þýðing: Aðalsteinn Ingólfsson